Sýsifos flettir og flettir blaðsíðum bóka sinna, en þær virðast engan endi ætla að taka. Óþarft er að ímynda sér að Sýsifos sé hamingjusamur - því með góða bók í hönd er hann það óhjákvæmilega.

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign

Réttarspeki Hegels — II. hluti: Réttur og Eign

Abstrakt Réttur

Eftir að Hegel skilgreinir Viljann, sem er frjáls í sjálfum sér og fyrir sjálfum sér, hefur hann umræðu um Rétt sem slíkan, eða abstrakt rétt. Þetta er fyrsti hluti verksins og grundvöllur alls þess sem byggir ofar honum, svo það er réttast að lesa þennan hluta vel og vandlega og glósa nóg meðan maður er að því.

Þessi fyrsti hluti skiptist svo, eins og allt annað út bókina, í þrennt; Eign, Samninga og Rétt/Ranglæti. Í þessari bloggfærslu mun ég hinsvegar aðeins kanna fyrsta hluta Abstrakt Réttar — þ.e.a.s. kaflann um Eign, auk þess sem ég vil fara nánar út í skilgreiningu Hegels á Rétti sem slíkum og hvernig hann rennur saman við hinn áður skilgreinda frjálsa Vilja.

Frjáls Vilji og Réttur

Réttur er algjörlega háður Viljanum, en enn fremur er hann háður því að Viljinn sé raunverulega frjáls, eins og ég lýsti í fyrri umfjöllun minni — í þeim skilningi að Viljinn taki frjálsa ákvörðun um að kjósa gjörðir sínar skynsamlega til þess að geta viðhaldið þessum hæfileika til þess að taka frjálsar ákvarðanir yfir höfuð. Hegel segir að tilvist þessa frjálsa Vilja sem slíks sé í raun og reynd Réttur.

Í málsgrein 29 í inngangi verksins skilgreinir hann Rétt sem slíkan fyrir fullt og allt: 

§29: Réttur [Recht] er hver sú tilvist, sem er tilvist [Dasein] hins frjálsa Vilja. Réttur er því samkvæmt skilgreiningu frelsi sem Hugmynd [Idee].
— G.W.F. Hegel, Outlines of the Philosophy of Right

Hér ber mér ef til vill að útskýra aðeins nánar hugtakið um Hugmynd eða Idee eins og ég skil það. Idee verður aðeins til þegar hugtakið (e. concept) í hegelskum skilningi og raunveruleiki tvinnast saman í eitt. Til dæmis má nefna að líkaminn, eða raunveruleikinn, einn og sér, er ekki Idee, vegna þess að í hann skortir sálina, sem er hugtak Hugmyndarinnar um mannskepnuna. Þannig er lík látins manns til en það hefur aldrei sanna tilvist vegna þess að hugtak mannsins hefur yfirgefið líkamann.

Önnur góð leið til að skilja þetta nánar er að hugsa um akarn. Það er sem slíkt ekki eikartré, en inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar (t.d. í erfðakjarnsýrum) og þar með ákveðna möguleika sem til þarf þannig að það verði til eikartré. Það er þó ekki fyrr en akarnið kemst í gróðurvæna mold og fær nóg af vatni, sólskini og ótrufluðum tíma til þess að það verði raunverulega að tré. Það er þá sem hugtakið um tré og raunveruleiki trésins eru orðin eitt eða Hugmynd [Idee].

Alhæfingin sem gerir Viljann frjálsan og/eða skilgreinir hann sem slíkan, er samband Viljans við sjálfan sig, þ.e. þessi endalausi hringur sem lýst var sem ástandi Gamma í fyrsta hluta umfjöllunar minnar. Þessi tilvist viljafrelsis þýðir að Viljinn sem slíkur hefur Rétt. Viljafrelsi sem slíkt getur aðeins tilheyrt einstaklingi sem slíkum, en Hegel skilgreinir einstakling sem hefur Viljafrelsi sem svokallaða Persónu. Persónur eru skilgreinar út frá því að hafa Vilja og þar með Rétt.

Persónur

Persónan er grundvallareining réttarverunnar. Grundvallarboðorð Persónunnar er að manni beri ávallt að viðurkenna aðrar Persónur sem slíkar. Án þess að Persónur séu virtar getur enginn Réttur orðið. En ég snerti nánar á því síðar. 

Í málsgrein 35 skilgreinir hann Persónuna nánar:

§35. Persónuleiki hefst ekki þegar verundin hefur náð meðvitund um sjálfa sig sem „Ég“ í hlutkenndum skilningi, heldur þegar meðvitundin skilur sjálfa sig sem algjörlega abstrakt „Ég“ hvar öllum hlutstæðum takmörkunum og gildum er eytt [e. negated] og hafa ekkert löggengi.
— G.W.F. Hegel, Outlines of the Philosophy of Right

Hann tekur svo nánar fram að einstaklingar hafi engan persónuleika fyrr en þau hafa öðlast þessa hreinu og tæru hugsun og þekkingu um sig sjálf. Þannig er greinarmunur á einfaldri sjálfsmeðvitund og þessari réttarlegu Persónu.

Ég skil þessa málsgrein sem slíka að Hegel meini það aðeins hér að Persónuleiki verði til þegar einstaklingurinn eða verundin er raunverulega meðvituð um að hún hafi frjálsan Vilja og þaðan af Rétt. Þannig getur maður verið einstaklingur án þess að vera Persóna — þegar maður veit ekki að maður hefur Rétt, þegar maður veit ekki að maður er frjáls til ákvarðana óháð öllum takmörkunum og gildum sem gætu annars hamlað manni. 

Rökfræðilega má líta á það svo að Réttur sé nauðsynleg forsenda Persónunnar, en ekki öfugt. Þannig getur verið til Réttur í tilteknu viðfangi án þess að til sé Persóna, en það getur ekki verið til Persóna án þess að til sé a) Réttur í einu viðfangi, og b) önnur viðföng með sama Rétt — en þetta eru forsendur þess að Réttur sé virtur í samfélagi. Hugtakið "Persóna" lýsir því aðeins ástandi Rétthafa í sambandi við aðra Rétthafa, hvar Rétthafinn er virtur sem slíkur — ef við neitum Rétti annarra, þá erum við í reynd að neita eigin Rétti sem slíkum, þar eð enginn hefur *meiri* Rétt en annar. Þegar við neitum öðrum Vilja um Rétt sinn erum við því einnig að hafna okkar eigin Rétti.

Maður er, og þá aðeins, Persóna, þegar maður gerir sér grein fyrir því hversu víðfeðmt ákvarðanatökusvið manns er í raun og veru. Maður þarf ekki að bugta sig undir neitt nema maður kjósi að gera það — maður kýs alltaf, þótt maður sé ekki meðvitaður um það. (in lieu of footnote: það kann að vera að Max nokkur Stirner hafi byggt kenningar sínar og hugmyndir á þessum skrifum Hegels fremur en öðrum).

Eign

Loks kemur Hegel að því að skrilgreina eign og eignarrétt. Til þess að Persónan geti átt tilvist sem Hugmynd [Idee] þarf hún að raungera ákvarðanatökufrelsi sitt í veröldinni. Hún þarf að geta kosið og breytt í samræmi við það, þannig að heimurinn breytist í samræmi við Viljann. Geti Persónan ekki breytt í samræmi við Viljann er hún augljóslega ekki fær um að framkvæma það sem hún Vill, en það mætti færa rök fyrir því að það þýði ekki að hún sé ófrjáls. 

Frelsi Viljans sem slíkt hlýtur alltaf að ákvarðast af heimum möguleika og þaðan af líkinda. Sem menn í mennskum líkama eru við ófær um að takast á loft og fljúga eins og ernir um háloftin eftir hentisemi. Öllum spekúleringum um athafnafrelsi og möguleika slepptum ætla ég þó að halda áfram að fjalla um hugmyndir Hegels.

Í fyrstu gerir hann skýran grundvallargreinarmun á Persónunni, sem hefur Vilja, og umheiminum. Sumt í umheiminum er dautt eða lifandi og viljalaust, og það eru hlutir sem Persónan getur „sett vilja sinn í“ og þar með eignast. Hlutir hafa engan tilgang eða stefnu í sjálfum sér og það er þess vegna sem hægt er að eigna sér þá. 

Hegel telur dýr til dæmis falla undir þessa skilgreiningu, verandi án frjáls Vilja og sjálfsmeðvitundar, og þar með eignfæranleg. Hegel telur dýr ekki hafa Vilja. Þannig séu þau t.d. eining sálar og líkama og eru þar með Hugmynd [Idee] lifandi veru, og að sama skapi er líkami þeirra í þeirra eigin vörslu. En vegna þess að þau Vilja ekki sjálf sig, frelsi sitt og eigið líf, og eru ófær um það, er hægt að eignast þau.

Líkaminn, telur Hegel, er okkar allra fyrsta eign. Hann skilur líkamann þó ekki frá sálinni í hinni klassísku cartesian tvíhyggju heldur ítrekar hann að maðurinn sé eining sálar og líkama.  Við eigum líkamann okkar þó aðeins svo lengi sem við Viljum eiga hann, vegna þess að við erum fær um að losa okkur við hann með sjálfsmorði. 

Síðar (§70) snertir hann raunar á sjálfsmorði og heldur því þar fram að enginn eigi Rétt á því að taka sitt eigið líf, því það gefi í skyn að líf manns sé einskonar dauður hlutur í veröldinni sem maður getur haft eignarrétt á og þar með nýtt eins og manni hentar og sýnist. Það að halda því fram að maðurinn eigi rétt á að taka sitt eigið líf sé því þversögn sem gefur í skyn að einstakur maður hafi Rétt yfir sjálfum sér, sem hefur þá væntanlega Rétt yfir sjálfum sér, sem hefur svo Rétt yfir sér sjálfum, og svo framvegis. Þessi staða Hegel er ruglingsleg og ég er ekki viss um hvort hún sé fullhugsuð.

Eign er í fyrstu bundin Rétti okkar sem slíkum óháð öllum samfélagslegum tengingum. Málin vandast þó þegar Samfélagið kemur inn í myndina og við þurfum að ákveða hver á hvað og hvernig. Þetta gerist, segir Hegel, þegar við viðurkennum rétt annarra, eins og ég snerti á að ofan í hlutanum um Persónuna. Ef eign mín er ekki viðurkennd af öðrum Persónum er brotið á Rétti mínum sem frjáls Vilji, og að sama skapi brýt ég á Rétti annarra til eignar þegar ég viðurkenni ekki eign annarrar Persónu yfir hlut.

Hegel heldur svo áfram að skilgreina eignarsambönd okkar við hluti; eign getur verið í gegnum yfirráð eða í gegnum notkun á hlut, og þriðja eignarsamband okkar við hlut er þegar við firrum okkur eign á honum. Skilgreiningar Hegel á þessum samböndum voru áhugaverð en ekki þess verð að fara beri út í þau í þaula hér. Hins vegar ber hann upp mjög áhugaverða stöðu í meðhöndlun sinni á yfirráðum yfir hlut þegar hann talar um þrældóm.

Þrældómur er auðvitað eignarástand sem allir nú til dags myndu sammælast um að sé ósiðlegt og brot á persónufrelsi annarra. Þrældómur hefur þó einfaldlega og óneitanlega verið staðreynd gegnum aldanna rás. Hegel telur að þrældómur sé aðeins til staðar í vanþróuðum samfélögum sem hafa ekki enn skilið hugtökin um Rétt og Persónur til hlítar. En þó ber hann upp athyglisverða punkta — sem tengjast svo inn í mynstur úr fyrra verki hans, Fyrirbærafræði andans

Þegar einhver er hnepptur í þrældóm, segir Hegel, kýs hann með fúsum og frjálsum Vilja sínum að gerast þræll, í stað þess að deyja. Hann vill meina að enginn raunverulega frjáls Vilji sem slíkur geti verið neyddur til að gera eitthvað sem hann vill ekki. Í þessu tilfelli eru valkostirnir þeir að deyja eða að gerast þræll, og þrællinn tilvonandi er raunverulega frjáls til þess að fórna líffræðilegu lífi sínu í þágu hugmyndar um að það sé skárra að deyja en að lifa undir stjórn einhvers annars. Þannig afsalar þrællinn sér frelsi sínu í skiptum fyrir frelsi til þess að halda áfram að lifa þegar hann ákveður að deyja ekki heldur gerast þræll einhvers. Þetta tvinnast svo á áhugaverðan hátt inn í díalektískt samband Herrans og Ánauðarmannsins [e. Lord/Bondsman] sem Hegel lýsir nánar í fyrrnefndri Fyrirbærafræði.

Þá ætla ég að láta staðar numið í bili. Í næstu færslu mun ég svo fjalla um Samninga og Ranglæti, sem hnýtir svo saman fyrsta hluta bókarinnar um abstrakt Rétt og heldur áfram inn í Siðferði. Bíðið spennt þangað til!

Málsvörn gagnsleysisins

Málsvörn gagnsleysisins

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji

Réttarspeki Hegels — I. hluti: Inngangur / Frjáls Vilji